Í tillögum stjórnar Icelandair Group hf. til aðalfundar félagsins árið 2012 er lagt til að greiddur verði arður til hluthafa vegna reikningsársins 2011 sem nemur 0,16 krónum á hlut. Arðurinn verður greiddur í íslenskum krónum (ISK) og nemur heildararðgreiðsla 800 milljónum króna.

Samþykki aðalfundur tillöguna verður arðsréttindadagur (e. record date) 28. mars 2012. Hluthafar tilgreindir í hlutaskrá félagsins í lok arðsréttindadags eiga tilkall til arðs.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að arðleysisdagur, það er sá dagur sem viðskipti hefjast með bréf félagsins án réttar til arðs vegna reikningsársins 2011, verði 26. mars 2012, næsta viðskiptadag eftir aðalfund. Arðurinn verður greiddur út 20. apríl 2012.