Könnun á lestri viðskiptablaða meðal stjórnenda stórfyrirtækja, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Viðskiptablaðið, leiðir í ljós að rúm 64% svarenda lesa Viðskiptablaðið reglulega, en 57% lesa Viðskiptablað Morgunblaðsins reglulega. Um 51% svarenda lesa Markað Fréttablaðsins reglulega, en um 11% nefna önnur blöð. Sé einungis horft til þeirra sem lesa viðskiptablöð reglulega eru 78% sem lesa Viðskiptablaðið, 70% Viðskiptablað Morgunblaðsins og 62% Markaðinn. Lestur viðskiptablaðanna þriggja hefur aukist frá síðustu könnun, sem gerð var á síðasta ári.

Helmingi líkar best við Viðskiptablaðið

Af þeim sem lesa viðskiptablöð reglulega sagði helmingur að sér líkaði best við Viðskiptablaðið, 31% líkaði best við Viðskiptablað Morgunblaðsins, en markaður Fréttablaðsins rekur lestina með 19%. Markaðurinn er þó að bæta sig frá síðustu könnun, en var þá með 13%. Hylli Viðskiptablaðs Morgunblaðsins minnkar þá úr 40%,  Viðskiptablaðið bætir lítillega við sig, var 47%. Ef skoðað er hvaða blað svarendum líkar best, eftir veltu fyrirtækis, kemur í ljós að Viðskiptablaðið hefur nokkra yfirburði hjá starfsmönnum fyrirtækja óháð veltu. Athyglisvert er að 70% stjórnenda í fyrirtækjum með yfir 10 milljarða krónu veltu líkar best við Viðskiptablaðið, en aðeins 19% Viðskiptablað Morgunblaðsins.

Kynjahlutfall þeirra sem lesa Viðskiptablaðið er öllu jafnara en hinna blaðanna, en af svarendum sögðust 67% karla lesa Viðskiptablaðið reglulega og 60% kvenna. Þá lesa 63% karla Viðskiptablað Morgunblaðsins reglulega, en 49% kvenna, 55% karla lesa Markaðinn, en 44% kvenna.

Svipað traust borið til blaðanna

Traust til fréttaflutnings blaðanna var nokkuð svipað, en Markaðurinn er þó nokkuð á eftir hinum. Svarendur voru beðnir um að gefa blöðunum einkunn frá einum og upp í fimm og voru bæði Viðskiptablaðið og Viðskiptablað Morgunblaðsins með meðaleinkunnina fjóra, en Markaðurinn 3,7. Markaðurinn hækkaði um 0,1 frá síðustu könnun, en Morgunblaðið lækkaði um sömu tölu. Þannig treystu 82% fréttaflutningi Viðskiptablaðsins vel eða mjög vel, 83% treystu fréttaflutningi Viðskiptablaðs Morgunblaðsins vel eða mjög vel, en aðeins 67% báru sama traust til Markaðarins.

Viðskiptablaðið mest lesið á öllum starfssviðum

Þegar litið er til stöðu svarenda innan fyrirtækis kemur í ljós að æðstu stjórnendur og framkvæmdastjórar sviða lesa mest af viðskiptablöðum, en Viðskiptablaðið er mest lesið hjá öllum hópum. Þá er líklegra að stjórnendur lesi viðskiptablöðin því hærra sem menntunarstig þeirra er og ekki síst Viðskiptablaðið

Í könnuninni kom í ljós að langflestir stjórnendur fyrirtækja lesa viðskiptablöð reglulega og því hærri veltu sem fyrirtæki hafa því líklegra er að stjórnendur þeirra lesi helstu viðskiptablöðin. Þá kemur í ljós að 73% stjórnenda segja að fyrirtæki þeirra sé áskrifandi að Viðskiptablaðinu.

Könnunin var gerð á tímabilinu 15. október til 6. nóvember og náði til 300 stærstu fyrirtækja landsins auk stórra opinberra stofnana og lífeyrissjóða. Alls voru 900 einstaklingar í úrtakinu, en svarhlutfall var 56%. Markmiðið var að tala við helstu stjórnendur og millistjórnendur þessara fyrirtækja og stofnana og eru svarendur því forstjórar/framkvæmdarstjórar, framkvæmdarstjórar ákveðinna sviða, starfsmannastjórar, fjármálastjórar og markaðsstjórar.