Niðurstöður nýrrar könnunar Gallup meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins sýna að stjórnendur í heild telja aðstæður nú vera góðar í atvinnulífinu en að þær fari versnandi á næstu sex mánuðum.

Að mati stjórnenda er auðveldara en áður að fá fólk til starfa, en rúmlega þriðjungur fyrirtækja finnur nú fyrir skorti á starfsfólki. Búast má við að á næstunni muni störfum fjölga hægar en um árabil því stjórnendur búast við 0,7% fjölgun starfsmanna á almennum vinnumarkaði á næstu sex mánuðum eða sem nemur 900 störfum að því er kemur fram í frétt SA um málið.

Stjórnendur búast við 2,4% verðbólgu á næstu 12 mánuðum, rúmlega 2% hækkun á verði vöru og þjónustu fyrirtækjanna á ársgrundvelli og að gengi krónunnar veikist um 4%.

Stjórnendur telja hækkun launakostnaðar vera meginskýringu á hækkun á verði vöru og þjónustu fyrirtækjanna.


Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, lækkar örlítið og hefur ekki verið lægri í tvö ár. Nú telja 70% stjórnenda aðstæður í atvinnulífinu góðar en 6% slæmar, samanborið við að 80% töldu þær góðar og 3% slæmar í síðustu könnun.


Mikil breyting hefur orðið á mati stjórnenda á aðstæðum eftir sex mánuði. 8% telja að aðstæður batni en 29% að þær versni. Aðrir telja þær verða óbreyttar. Þetta er mikil breyting frá könnunum síðustu fimm ára þegar mun fleiri hafa talið aðstæður fara batnandi en versnandi.


Skortur á starfsfólki er minni en í síðustu könnunum og telja nú 37% stjórnenda skort ríkja á starfsfólki, samanborið við 42% í síðustu könnun. Skorturinn hefur minnkað mikið í byggingariðnaði og iðnaði þar sem hann hefur verið mestur.