Fyrir stuttu var þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi þingvetur lögð fram. Plaggið geymir rúmlega 200 mál sem ríkisstjórnin ætlar sér að koma í gegn eða innleiða. Eðli málsins samkvæmt kennir þar ýmissa grasa, allt frá bjór beint frá býli til lengingar fæðingarorlofs og alls þess sem rúmast þar á milli. Viðskiptablaðið taldi því ekki úr vegi að renna sérstaklega yfir þau mál er varðar eignarrétt, lögaðila eða viðskiptalífið með einhverjum hætti.

Í yfirferðinni sem á eftir fylgir verður reynt eftir fremsta megni að tíunda mál einstakra ráðherra saman í hnapp. Dómsmálaráðherra hyggst til að mynda breyta ákvæði hegningarlaganna sem kveður á um refsiábyrgð lögaðila. Ákvæðið verður víkkað og hlutlæg refsiábyrgð, það er ábyrgð án sakar, verður fest í lög. Með breytingunni verður hægt að saksækja lögaðila þó ekki sé hægt að benda á eitt ákveðið tilvik eða starfsmann sem í hlut á. Röð smávægilegra mistaka starfsfólks mun því nægja til að um brot sé að ræða. Þá er á döfinni breyting á lögum um gjaldþrotaskipti þess efnis að skiptastjóri geti krafist þess að atvinnurekstrarbann verði lagt á þann sem komið hefur að stjórnun gjaldþrota félags á síðustu 18 mánuðum fyrir frestsdag. Skilyrði fyrir slíku banni er að viðkomandi teljist ekki hæfur til stjórnunar vegna verulega skaðlegra eða óverjandi viðskiptahátta.

Stjórnvaldið Skilavald

Á könnu fjármálaráðherra má finna talsvert magn innleiðinga á tilskipunum frá Evrópu. Hluti þeirra mun hafa í för með sér nokkra breytingu á starfsumhverfi fjármálafyrirtækja hér á landi. Fyrst ber þar að nefna innleiðingu CSDR-reglugerðarinnar en sú er eitt af afkvæmum efnahagsþrenginganna sem dundu yfir fyrir rúmum áratug. Reglunum er ætlað að bæta verðbréfauppgjör á EES-svæðinu og samræma kröfur sem gerðar eru til verðbréfamiðstöðva. Frá fjármálaráðherra er einnig væntanlegt frumvarp til laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, sem einnig er innleiðing á Evróputilskipun, en þau lög munu fela í sér ákvæði um starfsleyfi slíkra sjóða sem og skipulags- og starfsleyfisskilyrði. Til að mynda verður kveðið á um lágmarksstærð sérhæfðra sjóða. Það mun ekki ná til starfsemi lífeyrissjóða eða opinberra sjóða.

Viðbúið er að nýtt stjórnvald verði til í kjölfar innleiðingar þriðju Evróputilskipunar fjármálaráðherra sem hér er nefnd. Þar eru á ferð „Skilavald“ og „Skilasjóður“. Því fyrrnefnda er ætlað að fara með framkvæmdarvald við skilameðferð fjármálastofnana og verðbréfafyrirtækja en sjóðnum verður ætlað að fjármagna slíka skilameðferð. Tilskipunin gengur undir skammstöfuninni BRRD en sú setur kröfur á fjármálafyrirtæki um að vera betur í stakk búin til að bregðast við áföllum. Lögin sem á henni byggja gera meðal annars kröfu um að hjá fjármálafyrirtækjum sé til endurbótaáætlun um það hvernig eigi að bregðast við áföllum eða álagi.

Þá mun Fjármálaeftirlitið fá heimild til að grípa inn í starfsemi félagsins og virkja fyrrnefnda endurbótaáætlun, að hluta eða öllu leyti, þegar áfall hefur orðið eða hættuástand skapast. Þá mæla lögin fyrir um hvernig skilameðferð slíkra fyrirtækja verður háttað. Hið nýja Skilavald mun semja skilaáætlun fyrir hvert fjármálafyrirtæki sem áætlað er að geti haft áhrif á fjármálastöðugleika við mögulegt gjaldþrot en sú áætlun verður aðeins aðgengileg Skilavaldinu. Meðal þeirra aðgerða sem það getur gripið til er að selja reksturinn, að heild eða hluta, eða stofna brúarfyrirtæki sem tekur við kerfislega mikilvægri starfsemi fyrirtækis. Upptalningin á innihaldi frumvarpsins er að sjálfsögðu ekki tæmandi.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .