Fjármálaráðuneytið ætlar að setja á fót starfshóp sem ætlað er að skoða umfang svartar atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu. Auk fjármálaráðuneytisins munu fulltrúar frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu, Samtökum ferðaþjónustunnar og ríkisskattstjóra eiga sæti í starfshópnum. Horft er til þess að niðurstöður starfshópsins kunni að leiða til þess að farið verði í slíka úttekt með sama hætti og gert var í átaki ríkisskattstjóra, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins fyrir tveimur árum.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í svari Steingríms J. Sigfússonar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur, þingmanns Hreyfingarinnar, um svarta atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu.

Samfélagið verður af 13,8 milljörðum á ári

Á meðal þess sem fram kom í svari Steingríms var að ekki hafi verið farið í sérstaka úttekt á umfangi svartrar atvinnustarfsemi þar sem fyrirtæki í ferðaþjónustu eru eingöngu tekin fyrir. Þó hafi Ferðamálastofa síðastliðin tvö ár farið í varðandi þá sem stunda leyfisskylda starfsemi ferðaskipuleggjenda og ferðaskrifstofa en hafa ekki sótt um leyfi. Þótt stöðug fjölgun hafi verið í útgefnum leyfum er vitað að talsvert hefur verið um leyfislausa aðila í rekstri og var markmið átaksins að ráða bót á því.

Ástandið slæmt í hótel- og veitingarekstri

Þá segir í svarinu að helstu niðurstöðu átaks ríkisskattstjóra, Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands árið 2011 þar sem m.a. var lögð áhersla á að sporna við svartri atvinnustarfsemi að svört atvinna var að meðaltali 12% í úrtaki 6.167 starfsmanna á landsvísu og var langmest hjá fyrirtækjum með veltu undir 150 milljónum á ári. Samfélagslegt tap vegna svartrar vinnu var um 13,8 milljarðar króna á ári. Vísbendingar gáfu til kynna að ástandið væri einna verst í hótel- og veitingaþjónustu og í bygginga- og mannvirkjagerð.