Verði olíuhreinsistöð byggð á Íslandi mun hún þurfa að uppfylla ákvæði mjög umfangsmikilla lagabálka segir í frétt frá Samtökum atvinnulífsins. Þar kemur fram að gerðar eru kröfur um að ný fyrirtæki beiti því sem kallað er besta fáanlega tækni við framleiðslu sína. Líkur eru á að tilskipun ESB um útstreymi gróðurhúsalofttegunda verði innleidd hér á landi.

Í frétt SA kemur fram að starfsemi olíuhreinsistöðvarinnar myndi falla undir tilskipunina en í henni er gert ráð fyrir því að unnt sé að stofna ný fyrirtæki og að þau fái úthlutað útstreymiskvóta í samræmi við sínar þarfir. ESB bannar ekki fjárfestingar í nýjum fyrirtækjum og ljóst að íslensk stjórnvöld munu eiga óhægt um vik við að koma slíku banni fram í andstöðu við ákvæði sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu.