Innlendir aðilar seldu erlend verðbréf fyrir einn milljarð króna í maí síðastliðnum, segir greiningardeild Glitnis.

?Svo virðist sem innlánsstofnanir hafi verið að selja en staða þeirra í erlendum verðbréfum, þar sem eignarhlutur þeirra er undir 10%, fór úr 220,7 milljörðum króna í lok apríl niður í 187,9 milljarða króna í lok maí. Kemur þetta fram í tölum sem Seðlabankinn birti í gær," segir greiningardeildin.

Jafnvægi var í kaupum og sölu á hlutabréfum og skuldabréfum í maí en þó var selt meira en keypt af hlutdeildarskírteinum í verðbréfasjóðum erlendis.

Mikið af fjármunum var varið í kaup á erlendum verðbréfum á síðasta ári og á fyrstu mánuðum ársins í ár en nú virðist sem peningaflæðið hafi að snúist við síðustu misserin.

?Síðustu þrjá mánuði hafa verið seld verðbréf nettó fyrir um 3,1 milljarða króna samanborðið við kaup upp á 81,1 milljarða króna þrjá mánuðina þar á undan. Svo virðist sem fjárfestar séu að bregðast við gengisþróun krónunnar - kaupa erlend verðbréf þegar gengi krónunnar er hátt en selja þau þegar það er lágt, segir greiningardeildin.

Hún telur það eðlilegt en segir við þetta bætist að helstu erlendir markaðir hafi lækkað á síðustu þremur mánuðum.

?Þessi viðsnúningur sem hefur orðið í straum fjármagns í erlend verðbréf er til þess fallinn að draga úr gengislækkun krónunnar. Ljóst er að þegar mest var um þessi kaup í lok síðastliðins árs og í upphafi þessa árs þá setti það talsverðan þrýsting til lækkunar gengis krónunnar," segir greiningardeildin og bendir á:

?Á þeim tíma vó á móti mikil sókn erlendra aðila í skuldabréf sem erlendir aðilar voru að gefa úr í krónum. Nú hefur sú útgáfa hins vegar snarminnkað og markaðurinn þannig hugsanlega að leita jafnvægis í gildi krónunnar sem að okkar mati er nálægt því að tryggja jafnvægi hagkerfisins."