Dominique Strauss-Kahn hefur sagt af sér sem framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í kjölfar þess að hann var handtekinn og ákærður fyrir kynferðislega árás á þernu á lúxushóteli í New York um heligna. Í tilkynningu sem BBC vitnar í segist Strauss-Kahn þegar hafa tilkynnt stjórn sjóðsins að hann segi tafarlaust af sér.

Strauss-Kahn ítrekar sakleysi sitt í tilkynningunni og segir BBC að búast megi við að hann geri aðra tilraun til þess að losna úr haldi gegn tryggingu en hann situr nú í hinu alræmda fangelsi á Riker's Island í New York. Erlendir fjölmiðlar gera því þó skóna að bandarísk yfirvöld óttist að Strauss-Kahn muni leika sama leik og kvikmyndaleikstjórinn Roman Polanski á sínum tíma, þ.e. flýja til Frakklands sem hefur ekki framsalssamninga við Bandaríkin, og því verði honum neitað á ný.

Ekki er enn ljóst hver tekur við að Strauss-Kahn en nokkur nöfn eru nefnd til sögunnar. Þeirra á meðal eru Christine Lagarde, fjármáláráðhera Frakklands, ísraelski hagfræðingurinn Stanley Fischer og Gordon Brown, fyrrum forsætisráðherra Bretlands.