Stýrivextir í Bretlandi voru ekki hækkaðir á vaxtaákvörðunarfundi seðlabankans í Englandi sem haldinn var í dag og er þessi ákvörðun í takt við væntingar á markaðnum. Stýrivextir bankans eru 4,75% og hafa hækkað um 1% á þessu ári. Hagvísar hafa verið misvísandi að undanförnu, en eins og fjallað var um í Vegvísi í gær var samdráttur í framleiðslu í ágúst. Á móti kemur að meðalverð húsnæðis hækkaði um 1,4% í september. Næsti vaxtaákvörðunarfundur enska seðlabankans verður í nóvember og eru skiptar skoðanir á meðal sérfræðinga hvort að vextir verði hækkaðir á þeim fundi.

Seðlabanki Evrópu ákvað á vaxtaákvörðunarfundi sínum í dag að halda stýrivöxtum óbreyttum í 2%. Miklar olíuverðshækkanir og aukið atvinnuleysi hafa verið dragbítar efnahagslífsins á evrusvæðinu að undanförnu. Útlitið getur ekki talist bjart ef marka má spá Evrópuráðsins um að hagvöxtur verði tregur í taumi á næstu mánuðum sökum minni útflutingsverðmætis. Jafnframt dróst nokkuð úr spurn eftir iðnframleiðslu í ágúst sem gefur vísbendingar um minni einkaneyslu en spár höfðu gert ráð fyrir um.
Seðlabanki Englands spáir 0,9% hagvexti innan 3. ársfjórðungs 2004 sem jafngildir 3,6% hagvexti á ársgrundvelli og gerir bankinn ráð fyrir að toppi hagvaxtarskeiðsins verði náð á 1. fjórðungi 2005. Í ljósi þessa spá hagfræðingar enn einni stýrivaxtahækkun af hálfu Seðlabanka Englands fyrir árslok um allt að 0,25%.