Raftækjaframleiðandinn Philips telur að árið 2014 muni reynast fyrirtækinu erfitt í ljósi styrkingar evrunnar. Evran hefur styrkst um tæp 6% á síðastliðnum 12 mánuðum. Philips er stærsti framleiðandi ljósapera í heiminum, en stjórnendur fyrirtækisins telja að draga muni úr vexti í sölutekjum á Philips-vörum fyrir utan Evrópu þar sem tekjurnar af slíkri sölu, mældar í evrum, fari lækkandi með sterkara gengi.

Philips birti uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung 2014 fyrr í vikunni en hagnaður fyrirtækisins fyrir skatta, vaxtagjöld og afskriftir dróst saman um 13% á milli ára, og var um 370 milljónir evra. Þá drógust sölutekjur Philips saman um 5% á milli ára og voru á fyrsta fjórðungi ársins rúmlega 5 milljarðar evra. Við birtingu uppgjörsins lækkuðu hlutabréf í Philips, sem skráð eru í Kauphöllinni í New York, um 7% nokkrum klukkustundum eftir að rekstrarniðurstaðan varð ljós. Við birtingu uppgjörsins kom fram að samdráttinn í sölutekjum á milli ára, um 5%, mætti að öllu leyti rekja til styrkingar evrunnar, auk þess sem styrkingin hafi dregið úr rekstrarhagnaði fyrirtækisins á milli ára sem nemur um 1,8%.