Isavia, Slysavarnafélagið Landsbjörg (SL) og Ríkislögreglustjóri (RLS) undirrituðu í dag samning til tveggja ára um 16 milljóna króna úthlutun úr Styrktarsjóði Isavia til eflingar á hópslysaviðbúnaði. Fram kemur í tilkynningu að á síðustu þremur árum hafi 21 milljón króna verið úthlutað til björgunarsveita um allt land til kaupa fullkomnum björgunarbúnaði meðal annars bátum, bakbrettum, neyðarsendum og skyndihjálparbúnaði auk úrbóta á húsnæði og tækjum. Að tveimur árum liðnum muni björgunarsveitir landsins því samtals hafa fengið 37 milljónir króna úr sjóðnum.

Þá segir að nú verði styrkirnir veittir á víðari grunni en síðastliðin þrjú ár sem sjóðurinn hefur verið starfræktur. Áhersla verður lögð á fjölfarin ferðamannasvæði og þá landshluta þar sem helst mætti bæta hópslysaviðbúnað. Sérstaklega verður horft til umsókna björgunarsveita þar sem sýnt er fram á samstarf viðbragðseininga og heildstæða nálgun á hópslysaviðbúnað en almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra leikur mikilvægt hlutverk við samræmingu áætlana og framkvæmd.

Haft er eftir Birni Óla Haukssyni, forstjóra Isavia, að ávinningur félagsins af verkefninu byggist á gagnkvæmum stuðningi enda gegn björgunarsveitir SL lykilhlutverki í öllum flugslysaáætlunum á áætlunarflugvöllum Isavia og því hagur að þær séu ávallt sem best í stakk búnar að takast á við verkefnið. Björgunarsveitir gegni líka lykilhlutverki í öllum hópslysaviðbúnaði landsins og því hagur landsmanna og erlendra gesta sem um landið ferðast að björgunarsveitir SL séu ávallt sem best búnar til þess að takast á við hópslys.

Á myndinni má sjá þá Harald Johannessen ríkislögreglustjóra, Björn Óla Hauksson, forstjóra Isavia og Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóra Slysavarnafélagsins Landsbjargar, undirrita samninginn.