„Við erum nú að fara að semja við kröfuhafa okkar um skuldirnar. En það ætti ekki að hafa nein áhrif á verkefnin,“ segir Bjarni Þór Einarsson, fjármálastjóri verktakafyrirtækisins Sveinbjörns Sigurðssonar hf. Fyrirtækið er með elstu verktakafyrirtækjum landsins og með eignir á skrá frá byrjun fimmta áratugar síðustu aldar. Í byrjun febrúar fékk það heimild til greiðslustöðvunar og hefur það nú fengið heimild til að leita nauðasamninga.

Bjarni segir búið að ræða við alla lánadrottna og fyrirtækið í fullum rekstri.

Á meðal verka Sveinbjörns Sigurðssonar hf. er bygging stúdentagarða við Háskóla Íslands og bygging allt að 175 íbúða fjölbýlishúss við Mánatún í Reykjavík í samstarfi við MP banka og fjárfesta. Verkefnið er metið á um 7-8 milljarða króna.

Fyrirtækið hagnaðist um 18,2 milljónir króna árið 2012 samkvæmt síðasta uppgjöri.