*

þriðjudagur, 22. september 2020
Innlent 12. júlí 2020 17:02

Sveitarfélagið hafi barist gegn samkeppni

Sveitarfélagið Hornafjörður var nýverið dæmt skaðabótaskylt gagnvart félaginu Ice Lagoon ehf. vegna afgreiðslna á umsóknum félagsins um stöðuleyfi við Jökulsárlón.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Sveitarfélagið Hornafjörður var nýverið dæmt skaðabótaskylt gagnvart félaginu Ice Lagoon ehf. vegna afgreiðslna á umsóknum félagsins um stöðuleyfi við Jökulsárlón við Breiðamerkursand um tíu ára skeið. Lögmaður félagsins segir stórmál að sveitarfélag hafi hagað sér með samkeppnishamlandi hætti í hátt í áratug.

„Framkoma sveitarfélagsins fól í raun í sér aðgangshindrun að markaðnum en það barðist fyrir því að ekki myndi ríkja samkeppni um siglingar á Jökulsárlóni. Rekstur umbjóðanda míns var til að mynda í tvígang stöðvaður vegna ólögmætra aðgerða sveitarfélagsins þar sem ranglega var haldið fram að um óleyfisstarfsemi þar sem stöðuleyfi skorti. Á sama tíma fékk samkeppnisaðili, með mun fleiri lausafjármuni, að starfa óáreittur þrátt fyrir að hafa ekki slík leyfi. Hér var jafnræðis í engu gætt,“ segir Jón Þór Ólason, lögmaður Ice Lagoon, við Viðskiptablaðið.

Félagið taldi að háttsemi sveitarfélagsins hefði valdið því tjóni og höfðaði mál til viðurkenningar á bótaskyldu fyrir árin 2010-2018 af þeim sökum. Dómurinn féllst á það en taldi hins vegar að hluti tjónsins, það er sá hluti sem átti sér stað fyrir 28. maí 2014, fyrnst.

„Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að allar ákvarðanir sveitarfélagsins frá 2010 hafi verið ólögmætar en telur að hluti tjónsins hafi fallið niður sökum fyrningar. Það er skemmst frá því að segja að við erum algjörlega ósammála þeirri niðurstöðu og ég tel engar líkur á að fyrningarniðurstaðan verði staðfest,“ segir Jón Þór. Vissa um mögulegt tjón hafi í fyrsta lagi legið fyrir með dómi Hæstaréttar árið 2016.

Meðal dómskjala málsins var minnisblað frá EY, einhliða aflað af hálfu Ice Lagoon, þar sem mat var lagt á mögulegt umfang tjónsins. Kom þar fram að það væri áætlað á þriðja hundrað milljónir króna. Að sögn Jóns Þórs er næsta skref að höfða matsmál til að fá dómkvadda matsmenn til að meta endanlega hvert tjónið er. „Það liggur hins vegar fyrir að sveitarfélagið hefur lýst því yfir að málinu verði áfrýjað til Landsréttar. Umbjóðandi minn mun þá gagnáfrýja þeim þætti málsins er lýtur að fyrningunni,“ segir Jón Þór.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.