Ætla má að bensínverð hér á landi gæti lækkað um 13 krónur á næstu misserum,  til viðbótar við þær lækkanir sem þegar hafa átt sér stað. Þetta er mat greiningardeildar Íslandsbanka.

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað verulega á síðustu mánuðum og hefur nú ekki verið lægra í rúm fjögur ár. Þannig hefur Brent-olía lækkað um 31% frá því í júní og vísitala sem mælir þróun á 95 oktana bensíni hefur lækkað um 28% á sama tímabili.

Íslensku olíufélögin hafa hins vegar lækkað bensínverð um rúm 12% en díselolíuverð um rúm 5% á sama tímabili. Þrátt fyrir að tekið sé tillit til annarra þátta, svosem gengi krónunnar, þá er munurinn á lækkun eldsneytisverðs hér á landi og erlendis mjög mikill.

Spár benda til þess að heimsmarkaðsverð á olíu muni ekki hækka á næstu misserum og því er, að mati greiningardeildar Íslandsbanka, lítið því til fyrirstöðu að íslensku olíufélögin geti lækkað eldsneyti. Ætla má að lækkunin geti orðið í kringum 13 krónur. Slík lækkun myndi hafa veruleg bein og óbein áhrif á íslenska neytendur, en eldsneytisverð spilar til að mynda stóra rullu í þróun verðbólgunnar. Auk þess hefur hefur eldsneytisverð áhrif á flutningskostnað, sem hefur áhrif á vöruverð í landinu.