Yfirvöld í Sviss hafa neitað að láta af hendi upplýsingar um viðskiptavini svissneskra banka en eins og greint var frá í morgun hefur svissneski bankinn UBS afhent bandarískum skattayfirvöldum nöfn um 70 einstaklinga sem áttu viðskipti við bankann í Bandaríkjunum.

Nú á sér stað umsvifamikil rannsókn hjá bandarískum skattayfirvöldum sem felur það í sér að kanna hvort bandarískir auðmenn hafi fengið hjálp – meðal annars frá svissneskum bönkum – í því að flytja fjármagn úr landi og þar með undan skatti.

Reuters fréttastofan greinir nú frá því að stjórnvöld í Sviss hafa neitað að gefa leyfi fyrir uppljóstrun viðskiptavina banka þar í landi þar sem það kann að raska hinni frægu og áratugahefð um bankaleynd í landinu.

Talsmaður svissneska fjármálaráðuneytisins – sem eitt hefur leyfi til að ákveða hvort upplýsingarnar verða afhentar – sagði í samtali við Reuters fréttastofuna að ráðuneytið væri enn að vinna úr kröfu Bandaríkjamann og engar upplýsingar hefðu verið látnar af hendi.

Í frétt Washington Post frá því í gærkvöldi, þar sem greint var frá því að UBS hefði látið bandarískum yfirvöldum upplýsingarnar í té, kemur ekki fram hvort um sé að ræða upplýsingar af viðskiptum bankans í Bandaríkjunum eða í Sviss.

Viðmælandi Reuters telur þó að aðeins hafi verið um nöfn að ræða og ef einhverjar upplýsingar hafi verið látnar af hendi um viðskipti hafi það verið um viðskipti innan Bandaríkjanna.

Að sögn talsmanns UBS hafa engar upplýsingar verið látnar af hendi um innistæður viðskiptavina í Sviss.