Sænski bankinn Swedbank skilaði í dag inn uppgjöri fyrir fyrsta ársfjórðung, og var afkoma bankans á svipuðu róli og á sama tímabili í fyrra. Hagnaðurinn nam 2,9 milljörðum sænskra króna, sem jafngildir tæplega 36 milljörðum króna.

Uppgjör bankans þykir heldur undir væntingum, en kostnaður á fjórðungnum var fremur hár.

Í Hálf-fimm fréttum greiningardeildar Kaupþings segir að Swedbank líði fyrir sterka stöðu sína í Eystrasaltslöndunum. Þar ríkir talsverður ótti um mikinn samdrátt hagkerfa sem bitnað gæti á rekstri bankans.

Bréf í Swedbank hækkuðu um 2% í viðskiptum dagsins.