Tafist hefur að leysa Eimskipafélagið undan ábyrgðum vegna XL Leisure Group, sem var selt í lok árs 2006, að fjárhæð 280 milljónir dollara.

Stefnt var að því að endurfjármögnun XL Leisure Group lyki fyrir tveimur dögum og Eimskipafélagið þar með laust undan ábyrgðinni en það gekk ekki eftir. Áður hafði verið tilkynnt um að lánið yrði greitt 5. mars

„Í ljósi markaðsaðstæðna hefur þetta tekið lengri tíma en búist var við en við vonumst til að niðurstaða liggi fyrir innan tíðar,“ segir Halldór Kristmannsson, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Eimskipafélagsins, í samtali við Viðskiptablaðið.

„Þrátt fyrir tafir á endurfjármögnun er ekki um það að ræða að Eimskip beri að greiða upp lánið á skömmum tíma. Gott samráð sé við lánveitanda XL og við erum enn bjartsýnir á að endurfjármögnun ljúki fljótlega og að ábyrgðinni verði aflétt. Þegar niðurstaða liggur fyrir munum við tilkynna sérstaklega um það,“ segir hann.

Aðspurður telur Halldór að enginn beinn kostnaður muni falla á Eimskipafélagið vegna þessarar frestunar.

Philip Wyatt, forstjóra XL Leisure, Magnús Stephensen, aðstoðarforstjóri félagsins og stjórnendur dótturfélaga leiddu yfirtöku á félaginu. Kaupverðið var 450 milljónir dollara sem á þeim tíma var um 30,6 milljarðar króna.

Bókfærður hagnaður af sölu Avion Group, sem var móðurfélag Eimskipafélagsins, af sölunni á XL Leisure nam 7,3 milljörðum króna.

Til þess að salan gæti gengið eftir gekkst Avion Group, sem síðar varð að Eimskipafélaginu, í ábyrgð á láninu sem tekið var vegna yfirtökunnar. Aukin heldur ábyrgist Eimskipafélagið 280 milljón dollara lán til Air Atlanta fram í lok október, samkvæmt upplýsingum í ársreikningi. Á bak við lánið eru ellefu flugvélar.