Tap breska tískufyrirtækisins Mosaic Fashions, sem skráð er í Kauphöll Íslands, nam 1,4 milljónum punda (195 milljónum króna) á þriðja ársfjórðungi fjárhagsárs fyrirtækisins, samanborið við 4,5 milljón punda (627 milljón krónu) hagnað á sama tímabili árinu áður, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Sala fyrirtækisins jókst um 27% og nam 124 milljónum punda, eða 17,3 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður nam 6 milljónum punda, samanborið við 10,9 milljón pund á sama tímabili árinu áður.

Sala utan Bretlands jókst um 44%, sem vegur á móti óhagstæðum markaðsskilyrðum í Bretlandi, segir í tilkynningunni.

Hagnaður fyrir vexti, skatta og afskriftir (EBITDA) var 10,6 milljónir punda, samanborið við 14,9 milljónir punda á sama tíma í fyrra.

Derek Lovelock, forstjóri Mosaic Fahions, segir að árið hafi reynst  tískufyrirtækjum erfitt á Bretlandsmarkaði vegna minnkandi sölu, sérstaklega haustið og veturinn.

Afkomuspá fyrir árið hefur verið lækkuð, og spáir fyrirtækið nú að hagnaður fyrir vexti, skatta og afskriftir nemi 63 milljónum punda.