Undirdómur í Englandi hafnaði í dag frávísunarkröfum Kaupþings í tveimur máluð sem félög Tchenguiz-bræðra höfðuðu gegn bankanum fyrir dómstólum í Englandi. Jóhannes Rúnar Jóhannsson hjá slitastjórn bankans segir að niðurstaða dómsins sé sú að Kaupþing hafi ekki verið í vari gegn málaferlum þegar mál Tchenguiz-bræðra hófust, en lög kveða á um að fyrirtæki í endurskipulagningu og slitameðferð njóti verndar gegn málaferlum. Tchenguiz-bræður telja að skaði af völdum falls Kaupþings sé milljarður punda. Slitastjórn Kaupþings er ekki sammála niðurstöðu dómsins og segir Jóhannes að leitað verði leyfis til að áfrýja niðurstöðunni.

Samkvæmt niðurstöðu dómsins geta málaferlin því haldið áfram. Í tilkynningu frá Kaupþingi segir að einu áhrif dómsniðurstöðunnar séu þau að málaferli um efnishlið krafna Rawlingson & Hunter, félag Tchenguiz-bræðra, geta hafist í Bretlandi og að dómurinn mun ekki bíða niðurstöðu sambærilegra málaferla sem þegar eru hafin á Íslandi.

„Kröfur Rawlinson & Hunter í þessum málum endurspegla að stórum hluta sambærilegar kröfur sem nú þegar eru til meðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Þeim kröfum var hafnað af slitastjórn Kaupþings í mars 2010,“ segir í tilkynningu frá Kaupþingi.

„Samkvæmt íslenskum gjaldþrotalögum og lögum um fjármálafyrirtæki skal ágreiningur um réttmæti og upphæð krafna gegn íslensku fjármálafyrirtæki í slitameðferð leiddur til lykta af íslenskum dómstólum.

Þann 10. febrúar 2011 úrskurðaði Héraðsdómur Reykjavíkur að málarekstri á Íslandi um kröfurnar skyldi fram haldið án tillits til málaferla í Englandi.

Gangi dómur í Englandi um efnishlið krafna Rawlinson & Hunter þá hefur slíkur dómur ekki bein áhrif á Íslandi né verður bindandi fyrir íslenska dómstóla. Íslenskir dómstólar munu kveða upp úrskurð óháð niðurstöðu annarra dómstóla um hvort kröfur á hendur Kaupþingi séu réttmætar eða ekki.“

„Dómstóllinn í Englandi ályktaði ekki um réttmæti krafna Rawlinson & Hunter. Í raun er þetta einungis úrskurður um formhlið málsins. Efnislega eru kröfur Rawlinson & Hunter afar veikar og þær eru nú þegar til meðferðar fyrir íslenskum dómstólum,“ segir Weil, Gotshal & Manges LLP, lögfræðilegur ráðgjafi Kaupþings.