Denise Coates, stofnandi, helmingseigandi og forstjóri rafrænu veðmálasíðunnar Bet365 fékk 323 milljón bresk pund, eða sem samsvarar 52,3 milljörðum íslenskra króna í laun og arðgreiðslur á síðasta rekstrarári, sem lauk í mars síðastliðnum.

Félagið, sem er í eigu hennar, bróður hennar, föður og annarra fjölskyldumeðlima, hagnaðist um 791 milljón pund, eða sem samsvarar 128 milljörðum íslenskra króna, á síðasta ári, sem er rétt tæplega fimmtungsaukning frá árinu áður þegar hagnaðurinn nam 661 milljón pundum.

Félagið greiddi 92,5 milljón pund í arf, og ætti því forstjórinn að hafa fengið helminginn af því, en laun hennar námu 277 milljónum punda á árinu. Árið áður námu launin 220 milljón pundum.

Denise Coates er menntuð í hagrannsóknum, og gekk síðan til liðs við veðmálafyrirtæki föður síns þar sem hún kom auga á tækifærin við að koma upp netsíðu í kringum veðmálin, og stofnaði í kjölfarið félagið Bet365.

Meðal félaga í samsteypunni er fótboltaklúbburinn Stokes City, sem ætti að vera Íslendingum að góðu kunnur, en hann tapaði um 8,7 milljónum punda á síðasta ári. Samkvæmt frétt BBC um málið var ársreikningur félagsins birtur rétt eftir bresku þingkosningarnar og er segir viðmælandi ríkisfjölmiðilsins tímasetninguna kaldlynda.