Heildartekjur gististaða sem seldu í gegnum Airbnb á Íslandi voru 17,5 milljarðar króna árið 2018 skv. nýjum tölum frá Hagstofu Íslands. Tekjuaukningin milli ára nemur tæpum 20% en árið 2014 voru tekjurnar 2,5 milljarðar króna og hafa þær því sjöfaldast á fjórum árum.

Tölurnar byggja á virðisaukaskattskilum en skv. lögum ver erlendum aðila á borð við Airbnb að innheimta og standa skil á virðisaukaskatti hérlendis. Þá er í tilkynningu Hagstofunnar vakin athygli á því að síðastliðin tvö ár hafi Airbnb boðið upp á miðlun upplifana til viðbótar við gistirými. Breytingar á veltu sé því ekki endilega sambærilegar við breytingar á fjölda gistinátta sem miðlað sé í gegnum Airbnb.

Gistinóttum vegna Airbnb fækkaði um 3,3% milli ára þótt tekjuaukningu á sama tímabili hafi verið 20%, en mögulega skýrir aukið vöruframboð á vef Airbnb þessa þróun. Samtals voru gistinætur vegna Airbnb 1,8 milljónir á síðasta ári en þeim fækkaði umtalsvert á Höfuðborgarsvæðinu (10%) sem og á Suðurnesjum (11%). Mikil aukning var hins vegar á Vesturlandi (19%) og Norðurlandi vestra (16%).