„Það er rétt að það eru áhættuþættir til staðar í því haftaumhverfi sem við búum við í dag en ég tek ekki undir þá fullyrðingu að hrun blasi hér við,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir forstöðumaður greiningadeildar Arion banka. Cyrus Sanati, pistlahöfundur á vef CNN, segir að annað hrun á Íslandi sé óumflýjanlegt. Það gæti haft alvarleg áhrif í Evrópu.

„Það sem skiptir öllu máli nú er að stjórnvöldum takist að skapa hér traust á íslensku efnahagslífi. Í þessu samhengi skiptir auðvitað máli hvernig staðið verður að nauðasamningum og mikilvægt að uppgjör gömlu bankanna ógni ekki stöðugleika landsins hvað þá orðspori landsins. Þá þarf afnámsferlið sjálft að vera trúverðugt. Ef allt gengur að óskum þágæti niðurstaðan orðið allt önnur en hann er að lýsa. Á meðan Evrópa er að kljást við sín vandamál þá má velta fyrir sér hvort Ísland líti svo illa út, vanskil hafa farið lækkandi, eiginfjár- og lausafjárstaða bankanna er sterk, skuldir einkageirans hafa farið lækkandi samhliða því sem endurskipulagningu hefur miðað áfram þá hefur hagvöxtur mælst hér á landi frá miðju ári 2010,“ segir Ásdís jafnframt.

Aðspurð segist Ásdís telja að pistlahöfundur CNN máli skrattann á vegginn. „Hann talar um nýju bankana, en hann nefnir ekki þrotabúin einu orði. Í pistlinum er því haldið fram að gera megi ráð fyrir því að afskriftir á eignir bankanna geti orðið 75-100%. Ég skil ekki hvernig það getur staðist. Þeir vogunasjóðir sem nefndir eru í þessu samhengi eru kröfuhafar gömlu bankanna, þeir átta sig þó líklega á því að miðað við gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins þá er óumflýjanlegt að hluti þessara krafna muni þurfi að afskrifa, þar sem hröð losun þessara eigna myndi á endanum leiða til veikingar krónunnar og þar með verðlækkun þeirra mælt í erlendum gjaldeyri. Sú hætta er auðvitað til staðar að við ílengjumst í höftum sem hefur þá neikvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf og þannig ógnað stöðugleika landsins hægt og bítandi. Þess vegna skiptir öllu máli að við leysum vel þau verkefni sem blasa nú við okkur, þetta á bæði við um uppgjör gömlu bankanna og afnámsferlið sjálft,“ segir Ásdís.