Hagnaður SÍF á öðrum ársfjórðungi nam 33 þúsund evrum og er það langt undir spá greiningardeildar KB banka um tæplega 6 milljón evra hagnað. Í Hálffimm fréttum sínum í dag bendir greiningardeildin á að þann 22. mars síðastliðin birti SÍF rekstraráætlun sína í Kauphöllinni fyrir fyrstu tvo fjórðunga ársins. Þar var gert ráð fyrir 7,1 milljón evra í EBITDA hagnað á öðrum ársfjórðungi eða sem samsvarar 6,2% framlegð. Greiningardeild KB banka telur því að "með ólíkindum sé að félagið hafi ekki sent frá sér afkomuviðvörun enda uppgjörið úr öllum takti við uppgefnar áætlanir félagsins."

Á öðrum fjórðungi færist söluhagnaður af bréfum SÍF í Icelandic Group uppá rúmar 5 milljónir evra. Þá færist einnig söluhagnaður af Tros og Saltkaupum á fjórðungnum sem er nálægt 1,5 milljónum evra. Ef þessir einskiptis liðir eru teknir út úr, ásamt hagnaði af niðurlagðri starfsemi, sést að tap hefði verið af áframhaldandi starfsemi félagsins á fjórðungnum að upphæð um 6,5 milljónir evra.

Gengi hlutabréfa SÍF lækkaði um 3,6% í dag í um 140 m.kr. viðskiptum. Nú stendur yfir kynningarfundur SÍF fyrir markaðsaðila.