Líklegt er að gengi krónunnar styrkist eitthvað á næstu vikum en gefi síðan eftir yfir vetrartímann. Þetta er mat Greiningar Íslandsbanka sem bendir á að Morgunkorni sínu í dag, að gengi krónunnar hafi styrkst nokkuð upp á síðkastið.

Gengisvísitalan stóð hæst í 229 stigum undir lok mars en er nú komin niður í rétt rúm 207 stig. Þetta jafngildir 11% styrkingu krónunnar á fimm mánuðum og hefur krónan ekki verið sterkari síðan í byrjun síðasta árs.

Greiningardeildin segir í Morgunkorninu að styrkinguna megi einna helst rekja til árstíðarbundinnar sveiflu í gjaldeyrisstraumum vegna ferðaþjónustu og mikilla gjaldeyristekna sjávarútvegs á haustdögum. Líklegt sé þó að krónan gefi eftir að nýju yfir vetrartímann í takti við óhagstæðari vöru- og þjónustujöfnuð við útlönd.