*

þriðjudagur, 26. janúar 2021
Innlent 4. desember 2020 19:18

Telur efnahagsmál hafa setið á hakanum

Sigmar Vilhjálmsson segir „alveg galið að það sé ætlast til þess að einkaaðilar og fyrirtæki séu að greiða framkvæmd sóttvarna.“

Ritstjórn
Sigmar Vilhjálmsson veitingamaður.
Haraldur Guðjónsson

Sigmar Vilhjálmsson veitingamaður telur að allri ábyrgð hafi verið varpað á þríeykið og að ríkisstjórnin hafi ekki lagt sig fram við að styrkja fyrirtækin í landinu. „Það er alveg galið að það sé ætlast til þess að einkaaðilar og fyrirtæki séu að greiða framkvæmd sóttvarna,“ þetta er meðal þess sem fram kemur í Bítinu í morgun.

„Aðgerðirnar sem hafa verið lagðar fram eru aðgerðir ennþá frá fyrsta degi faraldurs. Þær eru ekki að virka og þess vegna erum við að sjá þetta aukna atvinnuleysi,“ er á meðal þess sem Sigmar segir.

Ólafur Hauksson almannatengill, sem einnig var í Bítinu, sagði að ríkisstjórnin hafði lagt sig mikið fram um að styrkja efnahagslífið. Þetta þvertók Sigmar fyrir. „Ég get ekki einu sinni skrifað undir þetta með blýanti,“ sagði Sigmar.

Sigmar kærir sig hins vegar ekki um frekari styrki frá ríkinu. Frekar myndi hann vilja að ríkið myndi „liðka til“. Hann bendir einnig á að „það er stórt lagalegt spurningarmerki hvort þú getir sett á sóttvarnarlög og ætlast til þess að einkaaðili borgi fyrir framkvæmd þeirra.“ Hann segir að slíkt stangist á við stjórnarskránna og að aðilar muni láta reyna á það í framtíðinni.

Hann sagði að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi farið vel af stað í upphafi og nefnir frestun á greiðslu opinberra gjalda. Slíkt hafi komið sér vel á þriggja mánaða tímabili en síðan hafi sóttvarnaraðgerðir herst.

Stikkorð: Vilhjálmsson Sigmar