Sextán prósent brottfluttra íslenskra lækna hafa ekki hug á að snúa aftur heim. Þetta sýna niðurstöður könnunar með íslensra lækna sem starfa í útlöndum en fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag. Umrædd könnun náði til 729 lækna en þar af svöruðu 147 einstaklingar. Af þeim læknum sem tóku þátt er meirihluti starfandi í Svíþjóð, tuttugu í Bandaríkjunum, aðrir á hinum Norðurlöndunum og víðar. Alls sögðust um 52 aðspurðra óákveðnir um hvort snúa eigi aftur heim til Íslands eða ekki.

„Niðurstöðurnar endurspegla það sem við höfum lengi haft á tilfinningunni, það er að óhugnalega fáir eru á leið til baka á næstu árum miðað við þörfina,“ hefur Fréttablaðið eftir Davíð B. Þórissyni, lækni í Lundi í Svíþjóð, sem stóð fyrir könnunni.