Hluta­bréfa­verð Trump Media & Technology Group Corp., sem sam­einaðist sér­hæfðu yfir­töku­fé­lagi fyrir helgi, hækkaði um 16% á fyrsta við­skipa­degi.

Dagsloka­gengi fé­lagsins var um 58 Banda­ríkja­dalir sem gerir markaðs­virði fé­lagsins um 8 milljarða Banda­ríkja­dala. Stærsta eign TMTG er sam­fé­lags­miðillinn Truth Social sem Donald Trump, fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seti, stofnaði árið 2021.

Hlutur Trump í fé­laginu er nú metinn á 4,5 milljarða dala sem er um 672 milljarðar ís­lenskra króna á gengi dagsins.

Fé­lagið hefur fengið auð­kennið DJT á Nas­daq sem eru upp­hafs­stafir Trump en skömmu eftir að fyrstu við­skipti voru hringd inn í Nas­daq í gær hækkaði gengið um 59%.

Markaðs­virði fjöl­miðla­fyrir­tækisins sé miðað við dagsloka­gengið er nú sam­bæri­legt og U.S Steel og Skecher­s.

Tíma­setningin gæti ekki verið betri fyrir Trump sam­kvæmt The Wall Street Journal en hann þarf að greiða 175 milljónir dala í tryggingu fyrir sekt vegna fjár­svika­máls í New York. Tryggingin gefur Trump færi á að á­frýja málinu en ef hann tapar málinu þarf að greiða 454 milljóna dala sektina að fullu.

Það gæti þó reynst þrautinni þyngri fyrir Trump að koma bréfunum í verð. Sam­kvæmt venju er eig­endum fé­laga sem taka þátt í að sam­einast sér­hæfðu yfir­töku­fé­lagi meinað að selja í hinu sam­einaða fé­laga í hálft ár til að forðast gengis­hrun.

Sjö manna stjórn fé­lagsins gæti þó veitt Trump undan­þágu til þess að losa hluta af bréfum sínum ef hann óskar eftir því. Sam­kvæmt WSJ hefur það verið gert áður en þó aldrei fyrr en mánuði eftir fyrsta við­skipta­dag.

Fjár­festar í fé­laginu gætu tapað tölu­verðum fjár­hæðum ef Trump byrjar að selja þar sem markaðs­virði fé­lagsins er mun hærra en undir­liggjandi virði fé­lagsins.

„Enginn veit í raun hvað mun gerast, en það verður alla­vega á­huga­vert að fylgjast með þessu,“ segir Kristi Marvin, stofnandi SPA­CInsi­der, í sam­tali við WSJ.

Ef stjórn TMTG myndi sam­þykkja beiðni Trump að byrja að selja bréfin eru sam­þykktir innan fé­lagsins sem setja honum skorður um hversu mikið magn bréfa hann má losa. Sam­kvæmt WSJ gæti Trump engu að síður losað bréf fyrir hundruðum milljóna dala á þriggja mánaða tíma­bili.

Sjö manna stjórn fé­lagsins er ein­stak­lega hlið­holl Trump en hún er saman­sett af fjöl­skyldu og vinum. Donald Trump Jr., sonur for­setans fyrr­verandi, og þrír ráð­herrar úr ríkis­stjórn hans eru meðal annars í stjórninni.

Þó að því fylgi tölu­verð á­hætta fyrir fé­lagið að leyfa stærsta hlut­hafanum að byrja selja bréf skömmu eftir skráningu er þá eru stuðnings­menn Trump eina á­stæðan fyrir því að gengi fé­lagsins sé svona hátt.

Hluta­bréfa­verð SPAC-fé­lagsins sem sam­einaðist sam­fé­lags­miðlinum hækkaði um 35% á mánu­daginn. Því er ekki ó­lík­legt að margir stuðnings­menn Trump myndu reyna að halda í bréfin sín og halda genginu uppi, byrji hann að selja bréf.