*

mánudagur, 1. júní 2020
Innlent 3. ágúst 2019 14:04

Þarf að hætta til að byrja aftur

Ásmundur Helgason verður ekki skipaður í laust embætti landsréttardómara nema hann óski þess að fá lausn frá embætti landsréttardómara.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Ásmundur Helgason verður ekki skipaður í laust embætti landsréttardómara nema hann óski þess að fá lausn frá embætti landsréttardómara. Verði það niðurstaða dómsmálaráðherra að skipa hann í hið lausa embætti þyrfti því að skipa annan dómara strax í kjölfarið.

Dómnefnd um umsækjendur um embætti dómara við Landsrétt skilaði fyrir helgi umsögn sinni um umsækjendur stöðu landsréttardómara sem losnar um næstu mánaðarmót. Við það tímamark lætur Vilhjálmur H. Vilhjálmsson eldri af dómaraembætti sökum aldurs en hann verður 69 ára á þessu ári.

Alls sóttu átta um stöðuna. Í þeim hópi voru Eiríkur Jónsson prófessor og héraðsdómararnir Ástráður Haraldsson og Jón Höskuldsson, þrír fjórmenninganna sem dómnefndin mat í hópi fimmtán hæfustu, er Landsrétti var komið á fót, en hrepptu ekki hnossið, og landsréttardómararnir Ásmundur Helgason og Ragnheiður Bragadóttir. Þau tvö síðastnefndu hafa ekki sinnt dómstörfum síðan dómur Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE), um að ríkið hefði brotið gegn 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) með skipan dómsins, var kveðinn upp þann 12. mars síðastliðinn.

Eftir að nöfn umsækjenda lágu fyrir var því velt upp hvort lög girtu fyrir það að umsóknir Ásmundar og Ragnheiðar yrðu teknar til meðferðar. Niðurstaða dómsmálaráðuneytisins (DMR) var á þann veg að svo væri ekki. Í ljósi þess að sami maður yrði ekki skipaður tvisvar í sama embætti var það mat ráðuneytisins að ef ráðherra kæmist að þeirri niðurstöðu að skipa annað þeirra í hina lausu stöðu yrði hlutaðeigandi að láta af starfi sínu fyrst.

„Í því sambandi skal sérstaklega tekið fram að ráðuneytið lítur svo á að ákvæði 3. mgr. 52. gr. laga um dómstóla, þar sem segir að dómari teljist sjálfkrafa fá lausn frá embætti ef hann tekur við skipun í annað embætti, geti ekki átt við í máli þessu. Þótt 15 embætti dómara séu við Landsrétt séu þau þannig samkynja og verði ekki aðgreind. Því sé ekki um annað embætti að ræða í skilningi ákvæðisins,“ segir í bréfi DMR til Ásmundar. Hann hélt umsókn sinni til streitu en Ragnheiður dró sína til baka.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Landsréttur