Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, segir 20% launahækkun lækna ekki setja ríkisbókhaldið úr skorðum, en hún var gestur í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins í morgun.

„Við erum að skila fjárlögum hallalausum fyrir árið 2015. Þannig að þetta er allt undir control,“ sagði Vigdís. Ríkisstjórnin hefði forgangsraðað í þágu heilbrigðismála, menntamála og samgöngumála. „Þannig að forgangsröðunin er skýr og þegar forgangsröðunin er skýr þá er útkoman góð,“ sagði Vigdís.

Hún segir ekki ljóst hversu umfangsmiklir kjarasamningar við lækna sé en hækkunin sé að minnsta kosti 20 prósent. „En það er alltaf ráðrúm í öllum fjárlögum upp á fimm milljarða, fyrir óvænt útgjöld, sem eru notuð í samninga ríkisins, kjarasamninga.“

Hún segir það hafa verið þjóðarvilja að laun lækna yrðu hækkuð ríflega og stjórnvöld hefðu orðið við því.