Ekki stendur til að birta áætlun stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta. Slíkt myndi aðeins þjóna hagsmunum vogunarsjóða, að sögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugsson forsætisráðherra. Hann bendir á að enn sé verið að vinna í Seðlabankanum að mati á greiðslujöfnuði. Vinnan hafi tekið lengri tíma en reiknað var með. En þetta sé mikilvæg vinna og grundvallarstærð í áætlun um afnámi hafta.

Það var Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi ráðherra og þingmaður VG, sem spurði Sigmund að því í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag hver staðan sé á fyrirhugaðri birtingu um afnám gjaldeyrishafta. Hann rifjaði upp í frétt Bloomberg-fréttaveitunnar um málið síðan í kringum stjórnarskipti í fyrravor að Sigmundur hafi sagst ætla að hraða afnáminu og boðað nýja áætlun byggða á hans eigin hugmyndum. Áætlunin átti að liggja fyrir í fyrrahaust. Steingrími fannst langt um liðið síðan þá.

Sigmundur sagði ekki hafa verið rétt haft eftir sér í viðtalinu hjá Bloomberg.

„Ég sagði hafa haft hugmynd um það hvernig slík afnámsáætlun gæti litið út. En afnámsáætlun verður líklega ekki birt. Það þjónar ekki tilganginum að gera áætlunin opinbera. Það myndi þjóna hagsmunum vogunarsjóða,“ sagði Sigmundur og benti jafnframt á að síðast þegar áætlun um afnám hafta, þ.e. árið 2011, hafi áætlunin byggst á röngum forsendum.