*

laugardagur, 15. maí 2021
Erlent 30. ágúst 2020 12:03

Þolinmæði þrautir vinnur allar

Warren Buffett er níræður í dag. Er metinn á 82 milljarða dala en 90% af virðinu hefur hann sankað til sín eftir 65 ára aldurinn.

Ritstjórn
Afmælisbarnið Warren Buffett.
epa

Fjárfestirinn knái Warren Buffett fagnar í dag 90 ára afmæli sínu og af því tilefni rekur bandaríski fréttamiðillinn The Wall Street Journal sögu Buffetts og leið hans á toppinn. Buffett er löngu orðinn þekktur fyrir verk sín, enda sá fjárfestir sem hefur náð hvað bestum árangri og er hann í dag metinn á hvorki meira né minna en 82 milljarða dala og starfar í dag sem stjórnarformaður Berkshire Hathaway.

Eitt það athyglisverðasta við fjárfestingaferil Buffett er sú staðreynd að hann hefur sankað að sér nærri 90% af heildarvirði sínu í dag eftir 65 ára aldurinn. Á þeim aldri eru margir farnir að undirbúa að setjast í helgan stein en Buffett hafði önnur markmið.

Rúm 78 ár eru síðan Buffett fjárfesti í fyrsta skiptið, er hann keypti þrjá hluti í Cities Service Co.

Í umfjöllun WSJ er varpað ljósi á stefnu Buffett hvað fjárfestingar varðar og ku hann frá unga aldri hafa gert sér grein fyrir að þegar kemur að því að byggja upp auð þá skiptir ekki einungis máli hversu mikið auðurinn vex, heldur einnig þurfi að taka með inn í jöfnuna hversu lengi auðurinn fái að vaxa. Um tíu ára aldurinn las hann bók um hvernig skildi græða þúsund dali og síðan þá hefur Buffett áttað sig á mikilvægi tímans. Síðan þá hefur þolinmæði við fjárfestingar verið lykillinn á bakvið árangur Buffetts.

Í gegnum tíðina hafi vinir og fjölskylda Buffetts, er hann var ungur maður, fylgst með því er hann spurði sig hvort hann vildi eyða 300 þúsund dölum í eina klippingu. Klippingin sjálf kostaði, líkt og gefur að skilja, ekki 300 þúsund dali heldur einungis örfáa dali. En fyrir Buffett virkaði dæmið þannig að ef hann myndi eyða nokkrum dölum þann daginn þá væri hann að fara á mis við hunduð þúsunda dala þar sem þessir örfáu dalir gætu vaxið upp í yfir langt tímabil.

Stikkorð: Warren Buffett