Sá mikli vöxtur sem verið hefur í ferðaþjónustunni síðustu ár skýrir stóran hluta af þeim hagvexti sem mælst hefur hér á landi síðan hagkerfið byrjaði að taka við sér árið 2010. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Greiningar Íslandsbanka sem áætlar að a.m.k. þriðjung hagvaxtarins frá 2010 megi rekja til ferðaþjónustunnar.

Í skýrslunni kemur fram að störfum í hagkerfinu hafi fjölgað um 10.300 á tímabilinu og séu 4.600 þeirra sem sinni þessum störfum starfandi í flutningum með flugi, á ferðaskrifstofum og í rekstri gisti- og veitingastaða. Því megi rekja 45% af fjölgun starfandi á tímabilinu til ferðaþjónustunnar.

Greining Íslandsbanka áætlar að ferðaþjónustan muni afla 342 ma.kr. í gjaldeyristekjur á árinu 2015 eða sem nemur 28,9% af áætluðum gjaldeyristekjum af útflutningi vöru og þjónustu á árinu. Til samanburðar var þessi hlutdeild 23,8% árið 2012 og 19,8% árið 2009.

Spá mikilli fjölgun ferðamanna

Þá er því spáð að fjöldi ferðamanna sem kemur hingað til lands um Leifsstöð á árinu 2015 verði um 1.191 þúsund, sem er aukning um tæplega 23% á milli ára. Áætla megi að heildarfjöldi ferðamanna verði um 1.350 á árinu eða rúmlega fjórfaldur fólksfjöldi landsins.

Greining Íslandsbanka spáir því einnig að gistinætur á heilsárshótelum hér á landi verði um 2,7 milljónir á árinu 2015 samanborið við 2,3 milljónir árið áður. Frá árinu 2010 hefur nýtingarhlutfall hótelherbergja hækkað úr 47% í 67% á Íslandi. Nýtingarhlutfall á höfuðborgarsvæðinu var um 84% á árinu 2014. Þrátt fyrir að áætlanir um 700 ný hótelherbergi á höfuðborgarsvæðinu gangi eftir er útlit fyrir að nýtingarhlutfall verði áfram í sögulegu hámarki á árinu 2015.

Þá sýnir samanburður á nýtingu og verði hótelherbergja í Reykjavík og í helstu ferðamannaborgum Evrópu að nýting er töluvert yfir meðallagi en verð undir meðallagi. Í Reykjavík hefur nýtingarhlutfall aukist þrátt fyrir verðhækkanir.