Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra er einn þriggja ráðherra sem verður fyrir svörum í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi klukkan hálftvö, samkvæmt dagskrá sem birt er á vef Alþingis. Gera má ráð fyrir að ráðherra verði spurður út i málefni sem tengjast leka á upplýsingum til fjölmiðla um hælisleitandann Tony Omos í nóvember síðastliðnum.

Mikil umræða hefur verið um mál innanríkisráðuneytisins og Omos síðasta hálfa árið. Eftir að lekinn hafði verið kærður til Ríkissaksóknara ákvað Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari að lögreglurannsókn skyldi fara fram. Kaflaskil urðu svo fyrir helgi þegar Hæstiréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að fréttastjóra mbl.is bæri ekki skylda til að gefa skýrslu fyrir dómi um tilurð fréttar sinnar.

Auk Hönnu Birnu munu Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra vera viðstaddir óundirbúnar fyrirspurnir.