Þrír starfsmenn af fjárfestingarbankasviði Arion banka hafa hætt síðustu daga. Erlendur Davíðsson hjá fyrirtækjaráðgjöf bankans er að fara yfir til Júpíter rekstrarfélags og Þorbjörn Atli Sveinsson, sérfræðingur á greiningardeild og staðgengill forstöðumanns þar, er að fara yfir til fjárfestingarbankans Straums. Þá hefur Bjarki Rafn Eiríksson, forstöðumaður markaðsviðskipta sömuleiðis hætt störfum.

Eins og greint var frá í Viðskiptablaðinu í gær hefur Styrkár Hendriksson verið ráðinn í hans stað sem forstöðumaður markaðsviðskipta hjá Arion banka. Styrkár hafði síðastliðin níu ár verið forstöðumaður hjá MP banka fyrir miðlun, vöruþróun, eigin viðskipti, eignastýringu og áhættu og innri endurskoðun.