Mikilvægt er fyrir Íslendinga að stíga varlega til jarðar í samskiptum við Rússa á næstu dögum og vikum, að sögn Helga Antons Eiríkssonar, forstjóra Iceland Seafood International, sem er eitt stærsta útflutningsfyrirtæki landsins á sviði sjávarafurða.

Helgi segir í samtali við Fréttablaðið í dag að það væri mikið áfall fyrir sjávarútvegsfyrirtæki, og ekki síst hagsmuni Íslands, að lenda á bannlista Rússlands varðandi innflutning á matvælum. Þessi markaður sé einn sá mikilvægasti fyrir uppsjávarfisk, og sérstaklega makríl.

Eins og VB.is fjallaði um í gær hafa yfirvöld í Rússlandi sett á slíkt innflutningsbann, sem nær til Evrópusambandsríkjanna, Bandaríkjanna, Kanada, Ástralíu og Noregs, en ekki Íslands.

Heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða til Rússlands frá Íslandi á síðasta ári nam tæpum 19 milljörðum og hefur aukist mjög á síðustu árum.