*

mánudagur, 20. september 2021
Innlent 15. maí 2021 19:02

Til bóta að fá lög um hluthafasamkomulög

Skynsamlegt væri ef löggjafinn tæki af skarið og kvæði á um stöðu hluthafasamkomulaga í íslenskum rétti að mati lögmanns.

Jóhann Óli Eiðsson
Sigurður Örn Hilmarsson, lögmaður hjá Rétti - Aðalsteinsson & Partners.

Skynsamlegt væri ef löggjafinn tæki af skarið og kvæði á um stöðu hluthafasamkomulaga í íslenskum rétti með lagasetningu. Þetta segir í grein eftir Sigurð Örn Hilmarsson, hæstaréttarlögmann hjá Rétti – Aðalsteinsson & Partners, sem birtist í nýjasta tölublaði Úlfljóts – Tímarits laganema. Að undanskildum þremur meistararitgerðum, auk fjögurra síðna í Hlutafélagarétti, riti Stefáns Más Stefánssonar, hefur takmarkað verið fjallað um efnið þrátt fyrir að slík samkomulög séu allalgeng í framkvæmd.

„Þó hvergi sé vikið beinlínis að hluthafasamkomulögum í íslenskri hlutafélagalöggjöf […] má engu að síður segja að gert sé ráð fyrir tilvist þeirra bæði í löggjöf og réttarframkvæmd,“ segir í greininni. Er þar meðal annars bent á að í hluthafalögum sé kveðið á um að hluthöfum sé heimilt að gera samkomulag um innbyrðis stöðu sína. Það sé aftur á móti aðeins skuldbindandi fyrir þá en ekki þriðju aðila.

Sem kunnugt er þá hafa samþykktir félaga að geyma reglur sem gilda um uppbyggingu og starfsemi þeirra og æðsta vald hvers félags er í höndum hluthafafundar. Hins vegar hefur tíðkast gegnum tíðina að hluthafar félags geri samkomulag sín á milli sem ætlað er að hafa áhrif á réttarstöðu þeirra innbyrðis. Með því móti er til að mynda hægt að skipa málum félagsins með öðrum hætti en samþykktir kveða á um svo lengi sem það rúmast innan settra laga.

„Þannig hefur hluthafasamkomulögum verið lýst sem nokkurs konar „skriðkjallara félagaréttarins“. Sú myndlíking er kannski ekki svo fjarri sanni, enda eiga skriðkjallarar og hluthafasamkomulög það sameiginlegt að gegna mikilvægu og oft á tíðum nauðsynlegu hlutverki – en yfirleitt þó í myrkinu,“ ritar Sigurður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.