Hinn 12. mars árið 1989 skrifaði Tim Berners-Lee tillögu að upplýsingakerfi, sem átti eftir að verða vefurinn (World Wide Web), en fullyrða má að engin uppfinning önnur hafi átt jafnmikinn þátt í að gera netið að almenningseign. Berners-Lee fékk grænt ljós á hugmyndina frá yfirmönnum sínum hjá cern, Evrópsku kjarnorkurannsóknarstofnuninni í Genf, og fljótlega litu fyrstu útgáfur vefjarins ljós, fyrst til innanhúsnotkunar, en skjótt víðar.

Mestu munaði þó sjálfsagt um að Berners-Lee galopnaði á kóðann og gaf heimsbyggðinni vefinn. Fyrir vikið hefur vefurinn ekki verið háður duttlungum ríkisstofnana eða einkaleyfum fyrirtækja. Það hefur reynst honum og notendum hans verulegur styrkur, því það hefur ekki skort áhugann á því hjá hinum og þessum að sölsa vefinn undir sig.