„Þetta er gríðarlega mikilvægur samningur fyrir Meniga. Nú erum við farin í loftið utan Íslands," segir Georg Lúðvíksson framkvæmdastjóri Meniga. Í morgun var tilkynnt að yfir 300 þúsund notendur heimabanka Skandiabanken í Noregi hafa aðgang að heimilisfjármálahugbúnaði Meniga. Notendur heimabanka viðskiptabankanna á Íslandi þekkja þessa lausn, sem í tilfelli Íslandsbanka hefur verið fellt inn í heimabanka viðskiptavina.

Yfir 30 þúsund nota heimilisbókhaldslausn Meninga hér á landi og felur þessi samningur í sér að notendum stórfjölgar. „Frá og með í morgun gátu netbankanotendur í Noregi notað heimilisbókhald Meniga," segir Georg. „Þetta er okkar stærsti samningar, hann skilar okkur umtalsverðum tekjum og er langstærsti áfanginn í sögu fyrirtækisins.“

Georg segir að vinnan með Skandiabanken muni nýtast starfsmönnum Meniga vel við innleiðingu á sömu lausn hjá öðrum bönkum í Evrópu. Nú sé unnið sé innleiðingarverkefnum í Finnlandi, Svíþjóð og Þýskalandi.

Meniga hlaut frumkvöðlaverðlaun Viðskiptablaðsins í lok árs í fyrra, 2011.