Tímasetning ummæla Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur um málefni Íbúðalánasjóðs gat gefið til kynna að þau byggðu á stefnu ríkisstjórnarinnar, sem hefði jafnvel getað þýtt að í þeim fælust innherjaupplýsingar. Þess vegna voru þau óheppileg, óháð því hvort umræddur þingmaður hafi búið yfir innherjaupplýsingum eða ekki. Þetta segir Baldur Thorlacius, sérfræðingur á eftirlitssviði Nasdaq OMX Iceland eða Kauphöll Íslands í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.

Baldur fer yfir það það hvernig birting ummælana á á sama tíma og ríkisstjórnin fundaði um fjárhagsstöðu og málefni Íbúðalánasjóðs olli því að stöðva þurfti viðskipti með bréf sjóðsins. Baldur segir markaðsaðila hafa beðið með mikilli eftirvæntingu eftir fregnum af því hvort ríkisstjórnin hygðist grípa til aðgerða til þess að draga úr skuldbindingu ríkisins vegna Íbúðalánasjóðs þegar ummæli Sigríðar Ingibjargar voru birt.

Þá bendir Baldur meðal annars á að um leið og traust á markaðnum dvínar getur kostnaður við fjármögnun hækkað. Til að mynda hafi ríkið og sveitarfélög gefið út skuldabréf fyrir um 1.400 milljarða frá árinu 2009 og því þurfi vaxtakjör ekki að breytast mikið til þess að viðbótarkostnaður af slíkri upphæð hlaupi á mörgum milljörðum.  Því hljóta allir að geta verið sammála um að trúverðugleiki markaðsins er ekki einkamál "markaðsmanna" segir Baldur í grein sinni.