Vodafone var hluti af Teymi fram á haustið 2009, þegar Ómar Svavarsson tók við forstjórastarfinu. Teymi var mjög víðfeðmt tækni- og fjarskiptafyrirtæki sem átti auk Vodafone eignir á borð við Tal, EJS og Skýrr.

Samanlagðar skuldir Teymis og dótturfélaga námu samtals um 50 milljörðum króna þegar nauðasamningur félagsins var gerður. Samkvæmt honum breyttu kröfuhafar félagsins skuldum í hlutafé og allt hlutafé fyrrum eigenda var afskrifað. Skuldir Vodafone lækkuðu um 40% við aðgerðina.

Dýr lærdómur

Ómar Svarsson - Forstjóri Vodafone
Ómar Svarsson - Forstjóri Vodafone
© BIG (VB MYND/BIG)
Ómar hefur starfað hjá Vodafone frá haustinu 2005 og þekkir því vel til þess tíma sem fyrirtækið var í eigu Dagsbrúnar og síðar Teymis. „Þetta var ákaflega sérstakur tími, en það væri ekki heillavænlegt fyrir mig að gagnrýna þá sem stjórnuðu hér á undan mér. Sjálfur var ég framkvæmdastjóri á sölu- og þjónustusviði Vodafone á þessum tíma. Ég held að tími þessara stóru eignarhaldsfélaga sé liðinn, enda sýnir reynslan að mörg ólík fyrirtæki undir einum hatti koma misjafnlega út úr slíku.

Það er til dæmis áhugavert að skoða stöðu Vodafone í gömlu Dagsbrúnarsamstæðunni. Þar vorum við með um 50% af veltunni en 75% af EBITDU og það liggur beint við að fjármagn héðan hafi verið nýtt í annað en fyrirtækið sjálft. Við höfum staðið við okkar skuldbindingar og höfum t.a.m. ekki tekið lán vegna fjarskiptarekstrar Vodafone frá árinu 2003. Lánin voru yfirleitt vegna þess að það var verið að steypa saman fyrirtækjum.

Mín skoðun er sú, þótt ég hafi verið starfsmaður Vodafone á þessum tíma, að athyglin í rekstrinum hafi ekki beinst að Vodafone og oft fannst mér að þeim fyrirtækjum sem raunverulega voru að búa til peninga á þessum tíma væri ekki sinnt. En ég vona að menn hafi lært af þessu, enda námskeiðið dýrt.“

Ítarlegt viðtal er við Ómar Svavarsson í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð.