Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað Tómas Brynjólfsson til að gegna embætti skrifstofustjóra skrifstofu efnahagsmála og fjármálamarkaðar. Þetta kemur fram í frétt á vef fjármálaráðuneytisins .

Tómas er með BA gráðu í alþjóðlegum félagsvísindum frá University of Georgia, meistaragráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í alþjóðastjórnmálum frá London School of Economics. Áður hefur Tómas verið fulltrúi efnahags- og viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis í sendiráði Íslands í Brussel þar sem hann vann að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu með áherslu á efnahagsmál og málefni fjármálamarkaðar.

Tómas var staðgengill skrifstofustjóra skrifstofu efnahagsmála í efnahags- og viðskiptaráðuneyti frá árinu 2009 til ársins 2011 þar sem verkefni hans lutu að rannsóknum og ráðgjöf um efnahagsstefnu til ráðherra auk þess sem hann bar ábyrgð á að framfylgja efnahagsstefnu íslenskra stjórnvalda gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hann vann einnig sem sérfræðingur efnahags- og alþjóðafjármálaskrifstofu hjá forsætisráðuneytinu við rannsóknir, skrif og ráðgjöf í efnahagsmálum sem og mótun og framkvæmd efnahagsstefnu Íslands sem unnin var í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn frá árinu 2008 til ársins 2009. Auk þess var hann sérfræðingur greiningardeildar Landsbanka Íslands og sinnti rannsóknum og skrifum um íslensk og alþjóðleg efnahagsmál og fjármálamarkað frá árinu 2007 til 2008.