Birting skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um hrun bankanna markaði tímamót. Með henni fékkst loksins heildarmyndin af mestu eignabólu sem myndast hefur í nokkru vestrænu ríki.

Bankakerfi, sem var meira en tífalt stærra en sem nam landsframleiðslu Íslands, byggði á veikum grunni og ótrúlega umfangsmiklum útlánum til kaupa á hlutabréfum í bönkunum.

1. Rannsóknarnefnd Alþingis skilaði skýrslu sinni þann 12. apríl. Þar var íslenskt viðskiptalíf og starfsemi föllnu bankanna sýnt í vægast sagt öðru og dekkra ljósi en aðalleikendur þeirra höfðu látið í skína. Nefndin var skipuð Páli Hreinssyni ,Tryggva Gunnarssyni og Sigríði Benediktsdóttur.

Skýrslan hefur þótt óumdeild, afar vel unnin og einstök á heimsvísu sem heimild um það bólu fjármálakerfi sem byggt var upp á Íslandi á árunum 2003 og fram á haust 2008.