Með fjárlögum ársins 2015, sem samþykkt voru á Alþingi í gær, er staðfest stefna undanfarinna ára þar sem ríkisvaldið tekur til sín sífellt stærri hluta af tryggingagjaldi, sem lagt er á öll greidd laun í landinu. Þetta segja Samtök atvinnulífsins í umfjöllun á vefsíðu þeirra.

Samtökin segja að frá árinu 2008 hafi þessi skattur hækkað um 3,015% af launum eða um 30 milljarða króna á ári. Gjaldinu sé meðal annars ætlað að standa straum af kostnaði vegna atvinnuleysis, en frá síðustu Alþingiskosningum sé hækkun gjaldsins um 9 milljarðar króna á ári þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi farið minnkandi.

„Ríkisstjórnin eykur því skattheimtu á atvinnulífið verulega og heldur áfram á sömu braut og fyrri ríkisstjórn sem núverandi stjórnarflokkar gagnrýndu harkalega fyrir skattpíningu,“ segir í umfjöllun samtakanna.

Samtökin segja að atvinnuleysi hafi náð hámarki árið 2009 og hafi verið 8,0% af mannafla en verði 3,2% á næsta ári samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar. Minna atvinnuleysi gefi tilefni til rúmlega 2% lækkunar tryggingagjaldsins sem ekki hafi orðið af.

Sjá nánar á vef Samtaka atvinnulífsins .