Þessa dagana eru starfsmenn frá Orkustofnun, þau Jónas Ketilsson jarðhitasérfræðingur og Guðlín Steinsdóttir laganemi stödd í Níkaragva.

Í frétt á vef Orkustofnunar segir þau Jónas og Guðlín vinni að verkþætti Orkustofnunar í þróunarsamvinnuverkefni á sviði jarðhita sem unnið er í samvinnu við ÍSOR og Þróunarsamvinnustofnun Íslands.

Hlutverk starfsmanna Orkustofnunar er að móta leiðbeiningar og viðmið vegna eftirlits með rannsóknum og nýtingu jarðhitaauðlinda í landinu.

Guðlín verður í Níkaragva næstu þrjár vikurnar og segir hún í frétt Orkustofnunar að þeim hafi verið tekið mjög vel.  Þau hafi setið fundi með ýmsum aðilum og ráðfært sig við heimamenn um hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í jarðhitamálum  Sérstaklega hafi þau þó einbeitt sér að gangverki stjórnsýslunnar þegar kemur að því að sækja um rannsóknar- og nýtingarleyfi á jarðvarmaorku.

Næstu daga mun Guðlín vinna að hugmyndum og leiðbeiningum í samvinnu við sérfræðinga ráðuneytis orku- og námumála (MEM) um stjórnsýslulega þætti jarðhitamála í Níkaragva.