Tvö erlend fyrirtæki skoða enn möguleika á að setja upp kísilvinnslu hér á landi að því er kemur fram í svari iðnaðarráðherra við fyrirspurn Ármans Kr. Ólafssonar alþingismanns.

Í svarinu kemur fram að erlent fyrirtæki fyrirhugar að framleiða hér á landi 50 þús. tonn árlega af hefðbundnum kísilmálmi (MGSi). Liggur fyrir álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2. október 2008. Aflþörfin er 60 MW. Fjöldi beinna starfa yrði 90, þar af um 30 störf sem krefðust háskólamenntunar. Talið er að um 180 afleidd störf mundu skapast annars staðar í þjóðfélaginu. Um 270 ársverk stæðu því að baki þessari verksmiðju. Bein störf yrðu 1,5 á hvert MW og ef bæði bein og afleidd störf væru talin yrðu störfin 4,5 á hvert MW.     Annað erlent fyrirtæki hefur sýnt áhuga á að reisa hér verksmiðju til framleiðslu á bæði hefðbundnum kísilmálmi (MGSi) og hreinkísli (SGSi). Aflþörfin er 100 MW. Fjöldi beinna starfa yrði 350, þar af um 100 störf sem krefðust háskólamenntunar. Talið er að allt að 875 afleidd störf gætu skapast annars staðar. Um 1.225 ársverk stæðu því að baki þessum iðnaði. Þannig yrðu til 3,5 bein störf á hvert MW, en 12,3 störf á MW ef bæði bein og afleidd störf væru talin.