Allt stefnir í að Kópavogsbær muni þurfa að mæta tveimur fyrirtækjum í dómsal vegna umdeildra útboða á líkamsræktarstöðvum í sundlaugum bæjarins. Björn Leifsson, framkvæmdastjóri World Class, segist hafa höfðað mál gegn Kópavogsbæ vegna útboðs sem haldið var árið 2014 og Kjartan Már Hallkelsson, framkvæmdastjóri Gym heilsu, segist einnig munu höfða mál gegn bænum vegna sambærilegs útboðs sem haldið var í fyrra.

Kópavogsbær hefur fjórum sinnum boðið út rekstur líkamsræktarstöðva í sundlaugum bæjarins. Bærinn hóf að bjóða aðstöðuna út vegna skilyrða sem sett voru af Samkeppniseftirlitinu í kjölfar kvörtunar Þreks ehf., fyrrum móðurfélagi World Class. Þrjú fyrstu útboðin hafa leitt til kvartana eða málshöfðana af hálfu World Class eða Gym heilsu.

Hvorugur hafði skilað tilboði

Fjórða útboðið á rekstri líkamsræktarstöðva við sundlaugar í Kópavogi stendur nú yfir og verða tilboðin opnuð næsta þriðjudag. Hvorki Gym heilsa né World Class höfðu tekið ákvörðun um að taka þátt í útboðinu þegar Viðskiptablaðið náði tali af framkvæmdastjórum þessara fyrirtækja. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur ekkert tilboð enn borist.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .