Gerður Kristný og Kristín Eiríksdóttir verða fulltrúar Íslands á bókmenntahátíðinni sem haldinn er á vegum kínversk-íslenska menningarsjóðsins dagana 20.-22. ágúst.

Hátíðin er haldin með fjárframlagi frá kínverska fjárfestinum Huang Nubo. Þetta er í þriðja sinn sem slík hátíð er haldin á vegum sjóðsins en sú fyrsta var haldin í Norræna húsinu árið 2010. Árið eftir var haldin slík hátíð í Kína, meðal annars í Pekíng.

„Síðan í fyrra voru komin plön um að halda hátíð í Noregi,“ segir Hjörleifur Sveinbjörnsson, einn skipuleggjenda hátíðarinnar, en kínversk yfirvöld hafi andæft þeim áformum.

„Núna erum við aftur komnir af stað og höldum þetta í Finnmörku. Að hluta til í Norður-Finnlandi og að hluta til í Norður-Noregi,“ segir Hjörleifur í samtali við Viðskiptablaðið.

Kínversk-íslenski menningarsjóðurinn hefur fjárframlög til þess að starfa í 10 ár, að sögn Hjörleifs og er vilji til þess að halda hátíðir eins og þessa einu sinni á ári. Eins og nafnið bendir til er sjóðnum ætlað að efla menningarleg tengsl milli Íslands og Kína en einnig í breiðu samhengi milli Asíu og Norðurlandanna.

Hjörleifur ítrekar að það sé mikil ánægja með að unnt hafi verið að halda hátíðina í Noregi, þrátt fyrir þann kulda sem hefur verið í samskiptum Kína og Noregs. „Við erum líka ánægð með að halda þetta í miðju Samalandi,“ segir hann.