Japanska eignarhaldsfélagið SoftBank hagnaðist um sex milljarða dollara á þriðja ársfjórðungi 2020 þrátt fyrir að tapa 1,3 milljörðum vegna fjárfestinga í skráðum tæknifyrirtækjum. Financial Times segir frá því að hagnaðurinn er tvisvar sinnum hærri en greinendur höfðu áætlað.

SoftBank tapaði tæplega sjö milljörðum á sama tíma fyrir ári síðan og má bætta afkomu meðal annars rekja til fjárfestingar í félaginu KE Holdings. Áðurnefnt félag safnaði um tveimur milljörðum dollara í frumútboði sínu í Bandaríkjunum og hafa hlutabréf félagsins hækkað um 278% síðan þá.

Frá því í mars á þessu ári hefur SoftBank selt fyrir um 90 milljarða dollara í félögum líkt og T-Mobile og Alibaba. Lausafé félagsins hefur því aukist verulega en enn fremur hyggst SoftBank selja breska örgjörvaframleiðandann Arm fyrir 40 milljarða dollara. SoftBank greiddi 32 milljarða fyrir Arm árið 2016.

Fyrir þá fjörutíu milljarða hygðist Softbank meðal annars kaupa eigin bréf sem og borga niður skuldir. Síðan þá hefur félagið einnig keypt hlutabréf fyrir sautján milljarða dollara, meðal annars í Amazon, Alphabet og Facebook.