Jerker Johannson hefur verið ráðinn yfirmaður fjárfestingastarfsemi UBS, að því er kemur fram hjá Bloomberg. Johannson kemur í stað Huw Jenkins, sem var látinn fara í október eftir miklar afskriftir í kjölfar hruns á bandarískum undirmálsbréfum.

Johannson, sem er 51 árs gamall, var áður varastjórnarformaður hjá Morgan Stanley og mun starfa á skrifstofum UBS í London. Hann gengur til liðs við bankann svissneska þann 17.mars næstkomandi.

Frá því að Jenkins var látinn fara hefur forstjóri UBS, Marcel Rohner, gegnt stöðu yfirmanns fjárfestingastarfsemi. UBS hefur þurft að að afskrifa sem nemur 14 milljörðum dollara vegna skuldabréfa tengdum bandaríska húsnæðismarkaðnum, en það er mesta tap sem nokkur banki hefur orðið fyrir í einni svipan.

UBS mun kynna afkomu sína á fjórða fjórðungi 2007 á morgun.