Hönnunarfyrirtækið Ueno ehf. hagnaðist um 730 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 115 milljónir árið 2019. Áhrif af rekstri bandaríska dótturfélagsins Ueno LLC námu 793 milljónum króna samanborið við 97,5 milljónir árið áður.

Bókfært virði dótturfélagsins hækkaði úr 604 milljónum í nærri 1,4 milljarða. Eignir samstæðunnar námu 1,56 milljörðum í árslok 2020, eigið fé var 1,48 milljarðar og eiginfjárhlutfallið 95,2%.

Tekjur Ueno ehf. námu 128 milljónum á síðasta ári. Rekstrargjöld voru 193 milljónir, þar af laun og tengd gjöld 127 milljónir en fjöldi ársverka voru tólf talsins. Rekstrartap félagsins nam því 65 milljónum árið 2020.

Haraldur Ingi Þorleifsson var eigandi alls hlutafjár Ueno í lok síðasta árs en hann seldi félagið til Twitter í janúar síðastliðnum.